Siðareglur 

Siðareglur þessar gilda um alla starfsemi, starfsmenn og stjórnendur Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf.

Reglunum er ætlað að leiðbeina starfsmönnum við framkvæmd daglegra starfa með hagsmuni fyrirtækisins og viðskiptavina þess að leiðarljósi. Reglunum er jafnframt ætlað að viðhalda og styrkja orðspor og trúverðugleika fyrirtækisins. 

Almennar starfsskyldur

Starfsfólk gegnir störfum sínum af alúð og samviskusemi, án tillits til eigin hagsmuna eða persónulegra skoðana. Starfsfólk gætir kurteisi og réttsýni, hefur í heiðri heiðarleika og sanngirni og starfar í anda jafnréttis. Starfsfólk kemur fram við viðskiptavini og samstarfsmenn af virðingu og sýnir sanngirni og gætir jafnræðis í störfum sínum. Starfsfólk rækir störf sín af þjónustulund og ábyrgð og mismunar ekki á ólögmætum eða ómálefnalegum forsendum, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, uppruna, trúar‐ eða stjórnmálaskoðana, fötlunar eða samfélagslegrar stöðu að öðru leyti

Starfsfólk vinnur saman faglega og af heilindum að settum markmiðum starfseminnar, sýnir hvert öðru virðingu og virðir verkaskiptingu sín á milli. Starfsfólk forðast að hafast nokkuð það að sem er því til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er það vinnur við. 

Hæfni 

Starfsfólk gætir þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfs þess á hverjum tíma. Það leggur sig fram um að viðhalda faglegri hæfni sinni og þekkingu í starfi og auka hana sjálfu sér og starfseminni til hagsbóta.

Hagsmunaárekstrar 

Starfsfólk forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekur athygli á þeim atriðum sem kunna að valda hagsmunaárekstrum í störfum þess. Þetta á einnig við ef þær breytingar verða á högum starfsfólks að valdið geti slíkum hagsmunaárekstrum. Starfsmaður sem telur að upp kunni að koma aðstæður sem valdið geti hagsmunaárekstrum af starsmannsins hálfu skal upplýsa sinn næsta yfirmann um það, til dæmis með tölvupósti. Þegar um er að ræða framkvæmdarstjóra tilkynna slíkt til stjórnar, á stjórnarfundi. 

Starfsfólk misnotar ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum hjá Malbikunarstöðinni Höfða hf. lýkur. Starfsfólk upplýsir um spillingu, ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, sem það kann að verða vart við í störfum sínum.

Gjafir og fríðindi 

Starfsfólk þiggur ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim, er leita eftir þjónustu fyrirtækisins nema að um sé að ræða óverulegar gjafir. Starfsfólk þiggur ekki gjafir eða hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. 

Trúnaður 

Starfsfólk virðir trúnað um vitneskju sem það fær í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum. 

Starfsmenn 

Það starfsfólk sem hefur ráðningar starfsfólks á sínu verksviði gætir þess að fylgja lögum, ákvæðum kjarasamninga, starfsmannastefnu og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar við val og ráðningar í störf. Þess er ávallt gætt að einungis málefnalegar forsendur liggi að baki ráðningum starfsfólks, allir starfsmenn hafa rétt til að fá sanngjarna og sömu meðferð.

Allir starfsmenn vinna samkvæmt gildum Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf.: Gæði, þekking, reynsla, áreiðanleiki. Áreitni og einelti, þar með talin kynferðisleg áreitni, eru með öllu óásættanleg innan Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. Neysla og áhrif áfengis og annarra vímuefna er ekki leyfð við störf hjá Malbikunarstöðinni Höfða hf.

Miðlun siðareglna 

Siðareglur þessar, sem og aðrar þær reglur sem vísað er til, skulu vera aðgengilegar starfsfólki Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf., almenningi og fjölmiðlum á heimasíðu fyrirtækisins og annan þann hátt sem til þess er fallinn að þessir aðilar geti kynnt sér þær. Kynna skal þessar reglur nýju starfsfólki er það hefur störf.